Svissneski/íslenski píanóleikarinn og tónskáldið Tanja Hotz kynntist tónlistinni snemma í barnæsku, þar sem hún fékk leiðsögn hjá móður sinni og gerði fyrstu tilraunir sínar til tónsmíða.
Hún hlaut fjölda viðurkenninga fyrir píanóleik í svissneskum tónlistarkeppnum fyrir unglinga og 1. verðlaun í svæðiskeppni í tónsmíðum í Sviss. Í úrslitum svissnesku tónlistarkeppninnar 2011 hlaut hún 1. verðlaun ásamt sérstakri viðurkenningu fyrir píanóflutning sinn. Löngunin til að læra á fjölmörg hljóðfæri tengdist áhuga hennar á tónsmíðum. Jafnframt píanóinu, stundaði hún fiðluleik, þverflautu, einsöng og selló, ásamt hljómfræðigreinum og tónsmíðanámskeiðum.
Eftir súdentsprófið hóf Tanja nám í píanóleik hjá Adrian Oetiker í Tónlistarháskólanum í Basel með tónsmíðar og frjálsan spuna sem valgreinar og lauk hún Bachelornámi 2014 með viðurkenningu. Hún lauk síðan MA-námi sem einleikari á píanó hjá Adrian Oetiker í Tónlistarháskólanum í München 2016 með ágætum árangri. Í framhaldi af því stundaði hún nám í tónsmíðum og hljómfræðigreinum í Tónlistarháslólanum í Vín undir leiðsögn Martins Lichtfuss og jafnframt því fékk hún píanókennslu þar hjá Lilya Zilberstein. Síðan 2018 hefur hún verið í MA-námi í píanókennslufræðum við Tónlistarháskólann í Zürich undir leiðsögn Eckart Heiligers og kennir jafnframt því á píanó.
Alþjóðleg tónlistarnámskeið stundaði hún meðal annars undir leiðsögn píanókennaranna Francois Kilian, Adrian Oetiker, Dimitri Alexeev, Lilya Zilberstein, Pascal Devoyon og Felix Gottlieb. Tónleikahald hennar fyrir utan Sviss var í Þýskalandi, Austurríki og á Íslandi. Frá og með haustinu 2020 er hún starfandi sem píanókennari í Tónlistarskólanum í Basel.